Afhverju WordPress?

WordPress (WP) er vinsælasta vefumsjónarkerfið á internetinu í dag. Meira en 34% vefsíðna eru innan kerfisins sem þýðir að ein af hverjum þremur vefsíðum sem heimsóttar eru daglega eru WordPress síður.

Það er ekki ýkja flókið að setja upp einfaldan vef í WordPress. Kerfið er þannig hannað í dag að ekki þarf mikla tæknikunnáttu við uppsetningu en krefst þess þó að viðkomandi þekki innviðina enda eru margir möguleikar í boði innan kerfisins og þá er gott að vera með á hreinu hvað hentar hverju sinni.

Opinn hugbúnaður

WordPress er svokallaður opinn hugbúnaður sem rétthafi veitir frjálsan aðgang að og frumforrit eru aðgengileg. Jafnframt getur hver sem er komið að hönnun og þróun þess. Kerfið er í grunninn gjaldfrjálst en tekið er sérstakt gjald fyrir einstaka viðbætur og útlitsþemu. Næstum óteljandi útlitsþemu er að finna í kerfinu og hægt að finna viðbætur sem viðkemur flestu í vefsíðugerð. Það er því ljóst að kerfið hentar ansi mörgum og kemur til móts við þarfir flestra. 

Þemu og viðbætur

Útlitsþemu segja til um hvernig við viljum að vefsíðan líti út og þá er hægt að velja sérstakt sniðmát sem mætir þeim þörfum. Viðbæturnar hafa áhrif á virkni síðunnar, þær geta verið lítil viðbót eins og  einfalt pöntunarform eða stærri eins og í formi vefverslunar. Í dag eru um 50.000 gjaldfrjálsar viðbætur í boði og um 5.000 útlitsþemu, mun fleiri eru í boði gegn greiðslu. Ekki þarf sérstaka kunnáttu í forritun til að geta sett upp vefsíðu í WP, viðmótið er einfalt og auðvelt í uppsetningu. Sé þekking á HTML og CSS til staðar eru fleiri möguleikar í boði og hægt að hafa aukna stjórn á hönnun og uppsetningu.

 

Hver er munurinn á WordPress.com og WordPress.org?

Þú hefur eflaust velt fyrir þér muninum á WordPress.com og WordPress.org, og þú ert ekki sá eini/eina.

Það sem einkennir WordPress.com:

  • Þú færð ókeypis aðgang með hýsingu.

  • Hentar sérstaklega vel fyrir byrjendur.

  • Það kemur uppsett og tilbúið til notkunar.

  • Við innskráningu færðu afhent þitt eigið lén – sem er með endingunni “.wordpress.com”, t.d. “thinsida.wordpress.com”.

WordPress.org:

  • Er að sama skapi – ókeypis aðgangur að WordPress.

  • Bíður uppá meiri sveiganleika en .com kerfið (gott er að hafa þekkingu á HTML og CSS ef þú vilt hafa aukna stjórn á hönnun og uppsetningu).

  • Þú þarft að kaupa hýsinguna sér.

Gott er að hafa í huga að auðvelt er að flytja flest innihald frá WordPress.com yfir í eigin hýsingu (útlit þarf þó að fínstilla aftur). Fyrir nýjan notanda er því tilvalið að byrja á .com útgáfunni og fikra sig áfram. Einnig, ef þú vilt losna við auglýsingar, hafa þitt eigið lén, fá fleiri viðbætur og meiri sveigjanleika, þá þarftu að borga fyrir það áskriftargjald.

 

Kostir og gallar

Það er ekki að ástæðulausu að WordPress er vinsælasta vefumsjónarkerfið, það býður upp á mikla möguleika og virkni sem mæta kröfum flestra. Helstu kostir kerfisins er að það byggir á meira en 13 ára þróun og er sífellt verið að bæta í virknina. WordPress samfélagið er stórt og það er alltaf hægt að treysta á að fá þá aðstoð sem þarf. Ef þú lendir í vandræðum er hægt að stóla á að einhver annar hafi lent í sömu vandræðunum og er þá auðvelt að finna lausnina. Að sama skapi hafa mörg fyrirtæki orðið til í kringum WordPress þar sem einstaklingar hafa sérhæft sig í að þróa lausnir sem henta kerfinu t.d. að þróa og hanna viðbætur og útlitsþemu.

Margir sérfræðingar hafa verið á móti kerfinu þar sem það þykir ekki nægilega spennandi, ekki nútímalegt og er frekar þungt í keyrslu. Miðað við þann tíma sem það er búið að vera til þykir það ekki hafa þróast nægilega hratt, þrátt fyrir það virðast flestir nota kerfið. Jákvæðu hliðarnar eru að það er áreiðanlegt, oftast rétta tólið fyrir hvaða verkefni sem er, auðvelt að læra á og skilja. Vefstjórar þekkja einnig oftast innviðina og finnst gott að vinna í þessu viðmóti. Kerfið leysir einnig mörg leiðinleg vandamál sem tengjast að setja inn efni handvirkt í gegnum HTML eða CSS. Það eitt og sér fær sérfræðinga til að notast við kerfið.

 

Að lokum

Margir sem eru í rekstri í dag mikla fyrir sér að setja upp einfaldan vefsíðu og fá yfirleitt fagfólk í verkið, enda ekkert að því. Það sem þykir erfiðara er að viðhalda vefsíðunni og halda henni uppfærðri. Ef síðunni er ekki viðhaldið sem skyldi er erfitt að skapa og/eða viðhalda þeirri ásýnd og því trausti sem fyrirtæki eru að skapa sér. 

WordPress er einfalt viðmót sem mætir kröfum flestra, það býður upp á mikla möguleika hvað varðar virkni þar sem flestir finna eitthvað við sitt hæfi í vefsíðugerð.

 

 

Heimildir

Kinsta. (2019, 1. mars). What Is WordPress? Explained for Beginners. Sótt af https://kinsta.com/knowledgebase/what-is-wordpress/# 

Trapani, G. (2016). WordPress Without Shame. Sótt af https://medium.com/track-changes/wordpress-without-shame-fedc1a2fef72 

Web technology surveys. (2019, 4. júlí). Usage statistics and market share of WordPress. Sótt af https://w3techs.com/technologies/details/cm-wordpress/all/all

Leave a Reply

%d bloggers like this: