Tækni- og öryggissmiðja í Barnaskóla Hjallastefnunnar

Í fyrstu viku febrúar fóru börnin á miðstigi í Barnaskólanum í Tækni- og öryggissmiðju. Hugmyndasmiður smiðjunar er Silja Hinriksdóttir en Silja er eigandi og vefráðgjafi Kóral ráðgjafar ásamt því að vera menntuð í kennslu í Upplýsingatækni og miðlun.

Markmið smiðjunnar var að opna augu nemenda fyrir heim forritunar og vélmennagerð, ræða um siðferðileg hugtök eins og friðhelgi og einkalíf í tengslum við samfélagsmiðla ásamt því að fræðast um tölvuhakk og siðferði á netinu.

Verkefnin voru fyrir bæði einstaklingsverkefni og hópaverkefni þar sem lögð var áhersla á skapandi og lausnamiðaða hugsun.

 

Einn dagur var tileinkaður Forritun og vélmennagerð. Börnin unnu í tveggja eða þriggja manna teymum og smíðuðu Lego Mindstorms vélmenni, tengdu þau svo við hugbúnað og æfðu sig í einfaldri forritun til að skapa ,,söguþráð” fyrir vélmennin sín. Í þessari æfingu lærðu börn að skilja megintilgang forritunar og mikilvægi þess að finna villur og leysa úr þeim. Stór partur af forritun er að gera mistök, læra af þeim, sýna þrautseigju og betrumbæta verk sitt – ,,Æfingin skapar meistarann!”

Við fengum einnig til okkar góðan gest, hana Guðrúnu Valdísi tölvuhakkara sem vinnur hjá öryggisfyrirtækinu Syndis. Guðrún var með fræðslu fyrir krakkana um tölvuhakk, hvað er góður hakkari (hvítur hattur) og hvað er vondur hakkari (svartur hattur). Í framhaldi ræddi hún svo um dulkóðun og mikilvægi þess að sýna ábyrga hegðun á netinu og samfélagsmiðlum, einnig að vera varkár um val á lykilorðum og því sem við deilum.

 

Í heimspeki hluta smiðjunar horfðu miðstigs börn á bíómyndina Truman show. Myndin fjallar um hann Truman, en hann lifir lífi sem er í raun blekking. Hann býr í risavöxnu myndveri og er aðal stjarnan í sjónvarpsþætti án hans vitundar. Þar til einn dag að þá fer hann að gruna að ekki sé allt með felldu…Í framhaldi veltu þau fyrir sér siðferðilegum hugtökum eins og einkalíf, friðhelgi, trúnaður og traust.

Leave a Reply

%d bloggers like this: